154. löggjafarþing — 75. fundur,  20. feb. 2024.

mat á endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna.

577. mál
[14:35]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nú bara mjög skýrt hjá þessari ríkisstjórn og í gildandi fjármálaáætlun er að finna áherslu um aukinn stuðning til háskólasamfélagsins, aukið fjármagn til háskóla þar sem við erum að sækja fram á grundvelli nýs árangurstengds fjármögnunarlíkans sem beðið hefur verið eftir frá 2007 og fjallaði um þörfina á því að hægt væri að fara í sókn fyrir háskólana með nýju fjármögnunarlíkani. Hér er rætt um forgangsröðun fjármuna, hvernig við forgangsröðum fyrir stúdenta. Auðvitað þarf að ræða það hvernig við styrkjum stúdenta, hvernig við erum að styðja við þá, hvar sé best að styðja þá og hvar raunverulegur vilji er til að sækja fram og styðja þá meira. Þingið var væntanlega í þeirri umræðu þegar frumvarpið fór í gegn hvar það ætlaði að leggja línurnar, hvar vaxtaþakið væri, hversu hár styrkurinn væri o.s.frv. Þetta þarf auðvitað að vera hægt að ræða. Ég hækkaði grunnframfærsluna um 18% í síðustu úthlutunarreglum og nú er kominn tími á næstu úthlutunarreglur þar sem við þurfum að skoða hvernig við getum gert betur fyrir stúdenta (Forseti hringir.) þannig að það er fullur skilningur á því að þarna er mikilvægt að sækja fram og styðja við í því umhverfi sem við þó erum, þar sem þarf að lækka verðbólgu og ná niður vöxtum á sama tíma og eyða ekki um efni fram heldur eyða fjármununum vel.

(Forseti (ÁsF): Ég minni ráðherra á að tíminn er ein mínúta í andsvari.)